Viðskipti innlent

Spáir hóflegum hagvexti fram til ársins 2016

Þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir hóflegum hagvexti næstu árin eða um 3% á ári frá 2012 og til 2016. Þá er gert ráð fyrir að verðbólgan haldist lág og að gengi krónunnar breytist lítið á spátímanum.

„Eftir tveggja ára samdrátt í landsframleiðslu sem nemur samtals um 10% er búist við að hagvöxtur verði 2,5% árið 2011. Þá verður vöxtur einkaneyslu 3,1% og fjárfestingar 15% en samneysla dregst saman um 2,6%,“ segir í spánni.

„Vöxtur hófst í einkaneyslu um mitt ár 2010 og gerir spáin ráð fyrir að kaupmáttur aukist í ár og næstu ár sem viðhaldi vexti einkaneyslu. Árið 2012 er talið að landsframleiðsla aukist um 3,1%, einkaneysla 3,3%, fjárfesting 14,5% en samneysla dragist saman um 0,8%. Eftir 2012 er reiknað með að vöxtur landsframleiðslu og einkaneyslu verði nærri 3% öll árin. Frá 2014 dregur úr vexti fjárfestinga þegar kemur að lokum fyrirhugaðra stóriðjufjárfestinga. Samneysla stendur í stað 2013 en byrjar að vaxa lítillega í kjölfarið.

Í upphafi árs 2011 var verðbólgan 1,8% og horfur á að hún héldist lág á árinu og næstu ár. Síðan þá hafa horfur versnað töluvert. Hrávörur hafa hækkað, en það hefur m.a. valdið hækkun á eldsneyti og matvöru. Þá hafa opinberir aðilar, s.s. Orkuveita Reykjavíkur, hækkað gjaldskrár sínar. Gengi krónunnar hefur veikst á fyrri helmingi 2011 sem ýtir einnig undir verðbólgu. Gert er ráð fyrir að gengi krónunnar breytist lítið á spátímanum.

Lágt gengi krónunnar og efnahagsbati í viðskiptalöndum Íslands ásamt hækkandi verði áls og sjávarafurða styðja afkomu útflutningsatvinnuveganna. Það verður því áfram myndarlegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum eins og verið hefur frá falli fjármálakerfisins. Innflutningur eykst vegna vaxandi neyslu og fjárfestingar en útflutningur eykst einnig. Afgangur minnkar þegar frá líður vegna þess að reiknað er með að vöxtur innflutnings verði hraðari en vöxtur útflutnings.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×