Viðskipti innlent

Unnið að því að hleypa aflandskrónum til landsins

Már Guðmundsson
Már Guðmundsson
Unnið er að því að undirbúa að hleypa aflandskrónum í fjárfestingar innanlands, en seðlabankastjóri segir það hafa sett strik í reikninginn að Alþingi hafi enn ekki afgreitt gjaldeyrishaftafrumvarp viðskiptaráðherra.

Seðlabankinn hefur síðan í byrjun sumars staðið fyrir gjaldeyrisútboðum í tveimur skrefum. Fyrst kaupir bankinn aflandskrónur í skiptum fyrir evrur, og endurheimtir svo evrurnar með því að selja innlendum eigendum gjaldeyris ríkisskuldabréf sem þeir skuldbinda sig til að eiga í fimm ár. Gjaldeyriseigendurnir fá ríkisskuldabréf í sinn hlut, en eignarhald þeirra er bundið til fimm ára. Þannig vill bankinn skipta óstöðugum aflandskrónueignum út fyrir stöðugar eignir sem engin hætta er á að leiti úr landi, og stuðla þannig að gengisstöðugleika, en útboðin eru liður í áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

Næsta skref verður svo að leyfa lögmætum eigendum aflandskróna að fjárfesta beint í íslensku atvinnulífi í gegnum sérstaka fjárfestingarsjóði sem einnig eru bundnir til fimm ára, en Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, segir að með þessu sé hægt að nýta óútfyllta eftirspurn eftir íslenskum krónum hjá þeim sem vilja fjárfesta í landinu.

„Og það er það sem viljum fara í sem allra fyrst, helst í gær eða fyrradag, í þetta að hleypa aflandskrónum inn í fjárfestingar í gegnum eitthvað kerfið sem er stýrt og haft eftirlit með,“ segir Már.

Hann segir að þessi leið sé nú í undirbúningi, en undirbúningsferlið sé flókið. Þá hafi það sett strik í reikninginn að þingið hafi enn ekki samþykkt lögfestingu gjaldeyrishaftanna, en viðskiptaráðherra lagði fram frumvarp þess efnis fyrr í sumar.

„Í nýja frumvarpinu eru ákvæði sem hefðu styrkt okkur í því að fara í þetta, en þetta setti líka strik í reiknignnn, en ég er að vonast til þess að það fari að bresta á,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×