Viðskipti innlent

Veltan á gjaldeyrismarkaði tvöfaldaðist milli ára í janúar

Veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri var nokkuð meiri nú í nýliðnum janúarmánuði en hún hefur verið undanfarið, að desember síðastliðnum undanskildum. Raunar tvöfaldaðist veltan á milli janúar nú og janúar í fyrra.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að Í janúar nam heildarveltan á millibankamarkaði 3.445 milljónum kr. og voru viðskipti Seðlabankans þar af 937 milljónir kr., eða um 27% af heildarveltunni.

Þetta er töluvert meiri velta en fyrir ári síðan, jafnvel þegar kaup Seðlabankans eru undanskilin nú í janúar, en bankinn hélt að sér höndum á gjaldeyrissmarkaði frá desember 2009 og fram til ágúst síðastliðins. Í janúar í fyrra námu viðskipti á millibankamarkaði 1.252 milljónum kr. og var veltan þar með tvöfalt meiri nú þegar viðskipti Seðlabankans eru frátalin.

Þó ber augljóslega að hafa í huga að þrátt fyrir að velta á millibankamarkaði sé lítil geta gjaldeyrisviðskipti hjá hverjum viðskiptabanka fyrir sig verið talsverð. Ef þokkalegt jafnvægi er í innflæði gjaldeyris og útflæði hjá hverjum banka fyrir sig hafa þeir þannig ekki þörf fyrir að leita á millibankamarkað með kaup eða sölu gjaldeyris.

Gengi krónunnar veiktist þó nokkuð í janúar síðastliðnum og var gengisvísitala hennar, sem vegur saman verð gjaldmiðla helstu viðskiptaþjóða Íslands, að meðaltali 211,6 stig. Svo há hefur gengisvísitala krónunnar ekki verið að meðaltali í einum mánuði síðan í júlí síðastliðnum.

Telja má upp nokkra þætti sem hér gætu verið að spila stórt hlutverk eins og vaxtaútflæði til erlendra eigenda ríkisbréfa, kaup Seðlabankans á gjaldeyri í lok síðasta árs og svo tímabundnir þættir á borð við lítið ferðamannainnflæði. Þó er augljóslega ekki hægt að svara því með óyggjandi hætti hvað sé að valda þessari lækkun krónunnar, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×