Viðskipti innlent

Viðbrögðin við neitun mildari en síðast

Viðbrögðin í nágrannalöndum okkar við nei í Icesave-kosningunni eru ekki alveg eins harkaleg og síðast.

Það eru Hollendingar sem harðast hafa gengið fram í viðbrögðum sínum en Financial Times hefur eftir Jan Kees de Jager fjármálaráðherra landsins að tími samninga sé liðinn. Íslendingum beri skylda til að greiða Hollendingum aftur það sem þeir lögðu út fyrir Icesave og að málið fari nú til dómstóla. Á móti hefur aðstoðarfjármálaráðherra Breta einungis sagt að málið gæti farið fyrir dómstóla.

Mikið hefur verið skrifað um Icesave kosninguna í norrænum fjölmiðlum sem flestir eru með fréttir af málinu nú í morgun. Lýsandi dæmi um þær fréttir er fyrirsögn í Berlngske Tidende sem segir Ísland dregið fyrir dómstóla eftir nei í Icesave.

Þá hefur Íslandsvinurinn Uffe Elleman Jensen, fyrrum utanríkisráðherra Dana, skrifað grein í Berlingske Tidende um niðurstöðuna þar sem hann segir að Íslendingar hafi komið sér í erfiða og þrönga stöðu með ákvörðun sinni. Hátt í 200 manns hafa bloggað við grein Uffe Elleman og sýnist sitt hverjum. Ýmist eru Íslendingar lofaðir fyrir að gefa bankageiranum fingurinn eða húðskammaðir fyrir ábyrgðalausa hegðun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×