Viðskipti innlent

Afgangur af vöruskiptum 21% minni en í fyrra

Sé miðað við fyrstu fimm mánuði ársins er vöruskiptaafgangur um 21% minni nú í ár en hann var á sama tíma í fyrra. Er munurinn tilkominn af miklum vexti innflutnings, og þá verulega umfram vöxt útflutnings.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.  Að teknu tilliti til gengisbreytinga var vöruinnflutningur rúmum 21% meiri á fyrstu fimm mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Á sama tímabili hefur vöruútflutningur aukist um tæp rúm 11%.

„Má gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram næsta kastið og gæti vöruskiptaafgangur orðið nokkru minni þetta árið en hann var í fyrra, en þá nam hann tæpum 119 milljörðum kr.,“ segir í Morgunkorninu.

Vöruskiptin við útlönd voru hagstæð um 6,8 milljarða kr. í maí síðastliðnum samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti nú í morgun.  Afgangurinn nú í maí er mun minni en hann var á sama tíma í fyrra þegar hann var 16,6 milljarðar kr. á sama gengi.

Sem fyrr segir skýrir aukinn innflutningur þennan mun en innflutningur á fjárfestingarvörum hefur verið á töluverði flugi upp á síðkastið. Í raun er aukning á öllum helstu liðum innflutnings nú í maí samanborið við maí í fyrra.

Má hér nefna að tvöfalt meira var flutt inn af flutningatækjum nú í maí en í maí fyrir ári, eða fyrir um 4,3 milljarða kr. í stað 2,1 milljarðs kr. Til við bótar við þetta má nefna að innflutningur á hrá- og rekstrarvörum jókst um 47% á þessu tímabili, innflutningur á eldsneyti og smurolíu um 36% og innflutningur á mat- og drykkjarvörum um 32%. Má því sjá að um verulega aukningu er að ræða, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×