Viðskipti innlent

Skilanefndir lagðar niður fyrir árslok

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. Mynd/Anton Brink
Skilanefndir bankanna verða lagðar niður fyrir árslok og verkefni þeirra færð slitastjórnum. Efnahags- og viðskiptaráðherra segir það vandamál að ekki séu þeir sömu sem eiga bankana og þeir sem stjórna þeim.

Frumvarp Árna Páls liggur nú fyrir Alþingi en þar er kveðið á um að verkefni skilanefndana falli til slitastjórna fyrir árslok. „Það er mikilvægt að þrotabú gömlu bankana komist í hendur raunverulegra eigenda og þetta millistykki sem eru skilanefndir hætti að vera til. Það þarf að fara í nauðasamninga eða gjaldþrot og koma bönkunum í hendur raunverulegra eigenda. Það er mjög mikilvægt til að réttir hvatar myndist í kerfinu,“ segir Árni Páll.

Kröfuhafar bankana verða því raunverulegir eigendur bankanna fyrir árslok. Þannig geta þeir átt viðskipti með hlutabréf í bönkunum.

Árni Páll segir banka með lélegar framtíðarhorfur vera vonda eign. Eðlileg markaðssjónarmið eigi að gilda um ákvarðanir bankanna.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri samkeppniseftirlitsins, segir mikilvægt að kanna hagsmuni kröfuhafa sem verða að eigendum bankanna. „Í sumum tilvikum er hætta á því að þeir hafi sakmmtímahagsmuni að leiðarljósi fremur heldur en langtímahagsmuni okkar, samfélagsins. Að hér byggist upp til framtíðar öflugir viðskiptavinir bankana, fyrirtæki á markaði, sem eru tilbúin til að keppa og skapa gott efnahagslíf.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×