Skoðun

Góðar fréttir

Inga Dóra Pétursdóttir og Stefán Ingi Stefánsson skrifar
Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Er hægt að gera eitthvað til að breyta þessum heimi? Eru vandamálin ekki svo mörg og yfirþyrmandi, fátæktin og misskiptingin svo gríðarleg? Við endurteknar hörmungarfréttir utan úr heimi getur verið auðvelt að draga þá ályktun. Þá er ágætt að hafa í huga að mikill árangur hefur þegar allt kemur til alls náðst á mörgum sviðum.

Á tíu árum hefur tíðni nýrra HIV-tilfella dregist saman um fjórðung á heimsvísu. Nærri 7 milljónir manna fá auk þess reglulega lyf við alnæmi, samanborið við nokkur þúsund áður. Á fimm árum hefur dauðsföllum fækkað um 20%.

Of mikið af tölum? Hugsum í staðinn um ófríska konu sem grunar að hún sé með HIV. Hún er óttaslegin því ef hún er smituð eru verulegar líkur á að barnið hennar smitist. Auk þess veit hún að mögulega mun hún deyja frá barninu á næstu árum. Hræðileg staða? Góðu fréttirnar eru að leiðir til að draga úr líkum þess að barnið smitist eru vel þekktar.

Með því að kanna áður en að fæðingu kemur hvort ófrísk kona sé HIV-smituð er hægt að grípa til ráðstafana. Aðgengi mæðra í þróunarlöndum að þessari þjónustu hefur stóraukist og æ fleiri konur gangast undir HIV-próf – raunar fjölgaði þeim um fjórðung einungis á síðasta ári.

Árið 2005 fengu 15% af ófrískum konum með HIV þartilgerð lyf. Nokkrum árum síðar voru þær orðnar yfir 50%! Við meðferð stórdregur úr líkum á að barnið smitist, auk þess sem móðirin þarf ekki að búa við lamandi ótta um að lifa ekki af.

Það er sorglegt að nánast öll þau börn sem eru HIV-smituð fengu vírusinn frá móður sinni; á meðgöngu, í fæðingu eða með brjóstagjöf. Þessu er hins vegar hægt að breyta – og þessu er verið að breyta.

Það eru góðar fréttir.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×