Handbolti

Anderson í áfalli eftir fyrsta tap sitt með Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Magnus Andersson, þjálfari austurríska landsliðsins.
Magnus Andersson, þjálfari austurríska landsliðsins. Nordic Photos / Bongarts

Austurríska landsliðið í handbolta tapaði í gær sínum fyrsta leik undir stjórn nýja landsliðsþjálfarans, Svíans Magnus Andersson.

Austurríki steinlá fyrir Serbíu, 39-27, í vináttulandsleik í Belgrad. Serbarnir byrjuðu mjög vel og voru komnir með tólf marka forystu eftir aðeins átján mínútur, 17-5.

Fjölmiðlar í Serbíu sögðu sigurinn hafa verið hefnd fyrir leik liðanna á EM 2010 er heimamenn í Austurríki slógu út Serbana í riðlakeppninni með sigri í lokaumferðinni, 37-31. Bæði lið voru í riðli með Íslandi sem vann riðilinn.

„Þetta eru mikil vonbrigði," sagði Andersson eftir leikinn. „Við vorum að mæta sterkum andstæðingi en þetta er engu að síður áfall fyrir mig. Þetta var minn fyrsti tapleikur með Austurríki."

„Við byrjuðum mjög illa og það var margt að í okkar leik. Ég veit ekki hvað ég get sagt meira. Þeir komust tólf mörkum yfir í fyrri hálfleik og það segir allt sem segja þarf."

Andersson tók við þjálfun austurríska landsliðsins af Degi Sigurðssyni sem náði góðum árangri með liðinu á EM í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×