Viðskipti innlent

Viðræður sjömenningana og Glitnis sigla í strand

Viðræður við sjömenningana um útfærslu skilyrða fyrir frávísun máls þeirra hafa siglt í strand. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem slitastjórn Glitnis hefur sent dómstóli í New York og greint er frá í Fréttablaðinu í dag.

Dómarinn í New York vísaði máli sjömenninga Jóns Ásgeirs Jóhannessonar frá dómi um miðjan desember á þeim grundvelli að málið ætti að vera rekið fyrir íslenskum dómstólum. Dómarinn setti hins vegar frávísuninni tvö skilyrði. Annars vegar að sjömenningarnir gæfu skriflega yfirlýsingu um að þeir myndu ekki mótmæla lögsögu íslenskra dómstóla og hins vegar að þeir myndu ekki grípa til varna í New York ef íslenski dómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að ganga að eigum þeirra í New York.

Síðan dómurinn vísaði málinu frá hafa lögmenn slitastjórnarinnar og stefndu, þeirra Jóns Ásgeirs, Lárusar Weldings, Hannesar Smárasonar, Pálma Haraldssonar, Ingibjargar Pálmadóttur, Jóns Sigurðssonar og Þorsteins Jónssonar reynt að koma sér saman um útfærslu skilyrðanna. Sjömenningum hefur hins vegar ekki tekist að ná samkomulagi við slitastjórnina en hún hefur nú sent bandaríska dómstólnum yfirlýsingu um að viðræðurnar hafi strandað.

Þá var reynt að koma á símafundi með dómara sem ekkert varð af en sjömenningarnir sendu sína eigin tillögu að útfærslu skilyrðanna sem slitastjórnin gat ekki fellt sig við. Í þeirri útfærslu segjast sjömenningarnir ekki ætla að nota þrjár málsástæður til að verjast aðför ef íslenskur dómstóll kemst að slíkri niðurstöðu. Að réttarhöldin á íslandi hafi verið hlutdræg, að dómstólarnir hafi ekki haft lögsögu yfir þeim eða að Ísland hafi verið rangur vettvangur fyrir réttarhöldin.

Slitastjórnin mótmælir þessu harðlega og telur að með þessu opni sjömenningarnir á þann möguleika að grípa til varna á öllum öðrum forsendum en þessum þremur. Það sé á skjön við þau skilyrði sem dómarinn setti fyrir frávísuninni. Þá er talið líklegt að dómarinn í New York taki endanlega ákvörðun um útfærslu skilyrðanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×