Viðskipti innlent

Óskar eftir tilnefningum í stjórnir sparisjóða

Bankasýsla ríkisins hefur óskað eftir tilnefningum í stjórnir nokkurra sparisjóða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embættinu.

Bankasýslu ríkisins hefur verið falið að fara með eignarhlut ríkissjóðs í Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis. Auk þess mun Bankasýslan fara með eignarhlut ríkissjóðs í Spkef sparisjóði þegar fjárhagslegri endurskipulagningu hans verður lokið. Óskað er tilnefninga í stjórnir þessara sjóða.

Þriggja manna valnefnd, sem skipuð er af stjórn Bankasýslu ríkisins, undirbýr tilnefningar aðila fyrir hönd ríkisins í stjórnir fyrirtækja sem eru á forræði stofnunarinnar.

„Bankasýsla ríkisins leggur áherslu á vandað ferli við val á þeim einstaklingum sem valdir eru til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins," segir segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins.

"Sparisjóðirnir gegna veigamiklu hlutverki á þeim svæðum sem starfsemi þeirra nær til og miklu skiptir að vel takist til við val á stjórnarmönnum í þeim sparisjóðum sem eru á forræði Bankasýslunnar. Ég vil sérstaklega taka fram að við leggjum áherslu á jafnrétti kynjanna við val á stjórnarmönnum og viljum sjá þau sjónarmið m.a. ráða ferðinni þegar stjórnarmenn sparisjóða verða valdir."

Valnefndin styðst við ákveðnar starfsreglur, sem hægt er að kynna sér nánar á heimasíðu Bankasýslu ríkisins, www.bankasysla.is. Fjallað er um hæfnisskilyrði stjórnarmanna í þriðju grein starfsreglnanna.

Nefndin tekur m.a. mið af yfirsýn, þekkingu og reynslu viðkomandi í tengslum við fyrirtækjarekstur og starfshætti fjármálafyrirtækja. Lögð er áhersla á að huga að þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig og tilnefna stjórnarmenn sem hafa fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og hæfni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×