Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri: Lífeyrissjóðirnir í lykilhlutverki eftir hrun

Magnús Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að nauðsynlegt sé fyrir íslenskt efnahagslíf að draga rétta lærdóma af því sem aflaga fór og að hans mati hafi lífeyrissjóðirnir íslensku brugðist rétt við með því að setja upp ferli til þess að læra af mistökum. Þetta kom fram í erindi sem Már flutti um stöðu íslenska lífeyrissjóðakerfisins í alþjóðlegu samhengi 14. október sl., á ráðstefnu í Hörpu til heiðurs Hrafni Magnússyni, fráfarandi framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða. Erindið hefur verið birt í heild sinni á vefsíðu Seðlabanka Íslands.

Már segir að vegna gjaldeyrishafta hafi lífeyrissjóðirnir verið stórir leikendur á markaði eftir hrun. Þeir hafi meðal annars hjálpað til við að fjármagna halla ríkissjóðs á viðráðanlegum kjörum, þeir hafi í reynd skipt sköpum. Mörg ríki horfi nú til Íslands öfundaraugum vegna þess. Orðrétt sagði Már: „Hitt er ljóst að þar sem gjaldeyrishöftin hafa stöðvað erlendar fjárfestingar sjóðanna um hríð þá hafa þeir leikið lykilhlutverk í því að fjármagna halla ríkissjóðs á viðráðanlegum kjörum nú á fyrstu árunum eftir hrun. Ríkissjóðir ýmissa smárra Evrópuþjóða öfunda hinn íslenska um þessar mundir hvað þetta varðar. Eigi að síður er það auðvitað umhugsunarefni, og vonandi tímabundið ástand, að markaðshlutdeild lífeyrissjóðanna í markaðsverðbréfum var yfir 50% og nærri 70% í íbúðarbréfum.“

Már sagði að lærdómurinn af því sem aflaga fór þyrfti að vera víðtækur og á öllum sviðum samfélagsins. Eitt af því sem skoða þurfi séu bókhaldsreglur og mat á eignum.

„Við verðum að draga rétta lærdóma varðandi hvata og áhættustjórnun, varðandi bókhaldsreglur og eignamat, varðandi regluverk og eftirlit, varðandi hagstjórn og varðandi samspil efnahagslífs og fjármálakerfis. Í því sambandi hef ég með ánægju fylgst með því að lífeyrissjóðirnir hafa fyrir sitt leyti sett upp ferli til að draga sína lærdóma. Eitt af því sem nefnt hefur verið í því sambandi er að sjóðirnir þurfi að vera gagnrýnni í framtíðinni. En það á líka við um okkur öll.“

Sjá erindi Más í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×