Viðskipti innlent

Vilja víkja til hliðar lögum og reglum um opinberar ráðningar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Páll Magnússon ætlar ekki að taka við starfi forstjóra Bankasýslu ríkisins. Hann segir það vera óvinnandi verkefni fyrir forstjóra að sitja undir afskiptum stjórnmálamanna sem vilji víkja til hliðar lögum og reglum um opinberar ráðningar.

Gengið var frá ráðningu Páls Magnússonar í starf forstjóra Bankasýslu ríkisins í lok síðasta mánaðar.

Ákvörðun stjórnar um ráða Pál var strax harðlega gagnrýnd og varð að lokum til þess að stjórnin sagði af sér.

Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær kemur fram að í umræðu um málið hafi verið vegið að trúverðugleika stofnunarinnar og friður rofinn um starfsemi hennar. Sérstaklega er minnst á viðbrögð alþingismanna í þessu samhengi en Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði á Alþingi að ákvörðunin um að ráða Pál væri hneyksli.

Eftir að stjórn Bankasýslunnar sagði af sér var strax ljóst að staða Páls væri orðin erfið. Því er ekki hægt að segja að ákvörðun hans hafi komið á óvart.

Páll baðst undan viðtali þegar fréttastofa hafði samband í dag en í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér segir að með afsögn stjórnar Bankasýslunnar hafi allar forsendur þess að hann komi til starfa sem forstjóri stofnunarinnar brostið.

Þá segir ennfremur í yfirlýsingunni að það sé óvinnandi verkefni fyrir hlutaðeigandi að sitja undir pólitískum afskiptum, en í raun hafi stjórnmálamenn krafist þess að lögum og reglum um opinberar ráðningar verði vikið til hliðar í málefnum Bankasýslu ríkisins. Því hafi hann ákveðið að taka ekki við starfi forstjóra.

Ný stjórn yfir Bankasýslu ríkisins verður væntanlega skipuð á næstu vikum og eitt af hennar fyrstu verkum verður að ráða nýjan forstjóra í stað Páls Magnússonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×