Viðskipti innlent

LS Retail aflýsir alþjóðlegri ráðstefnu vegna gossins

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail hefur aflýst alþjóðlegri ráðstefnu sinni sem hefjast átti í hinu nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsi Hörpu á morgun. Ástæðan er eldgosið í Grímsvötnum og óvissan sem það veldur um flugsamgöngur til og frá landinu.

Í tilkynningu segir að skráðir þátttakendur í ráðstefnunni hafi verið hátt í 200 og von á ríflega 130 erlendum gestum til landsins, frá flestum löndum Evrópu, allmörgum Asíulöndum, Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Stærstur hluti ráðstefnugesta var væntanlegur til landsins í dag. Ráðstefnan er árleg og þar koma saman fulltrúar LS Retail, samstarfsaðila og Microsoft.

„Að fella þurfi niður ráðstefnuna eru vissulega mikil vonbrigði fyrir stjórnendur og starfsmenn LS Retail, sem og ýmsa þjónustuaðila sem ætluðu að koma að ráðstefnuhaldinu,“ segir í tilkynningunni.

LS Retail er rótgróið hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur sérhæft sig í þróun og sölu á hugbúnaðarlausnum fyrir verslunar- og veitingarekstur á alþjóðamarkaði. LS Retail þróar lausnir byggðar á Microsoft Dynamics NAV og Microsoft Dynamics AX og hafa þær nú verið seldar og settar upp í 132 löndum og þýddar á 33 tungumál. Þrátt fyrir samdrátt hjá fyrirtækjum víða um heim hefur íslenska hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail vaxið og dafnað á undanförnum árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×