Viðskipti innlent

Vaxandi verðbólguótti hjá fjárfestum

Verðtryggingarálagið á ríkisskuldabréf heldur áfram að hækka og er álagið til sex ára um 4,66%.  Það er því ljóst að það er töluvert mikill og vaxandi verðbólguótti hjá fjárfestum.

Þetta kemur fram í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar segir að gengisþróun krónunnar ræður miklu um breytingu verðlags á Íslandi og því einsýnt að fjárfestar reikna frekar með því að krónan veikist næstu árin en að hún styrkist.

Krónan gaf aðeins eftir í síðustu viku.  Gengisvísitalan hækkaði um 0,31% og endaði í 219,61 stigum. Krónan hefur verið í nær samfelldri veikingarhrinu frá áramótum, þó mest fyrstu tvo mánuðina. Síðan þá hefur hægt á veikingunni en hún hefur þó verið nokkuð stöðug.

Frá áramótum hefur krónan veikst um tæp 5,3% en þróun á verði einstakra gjaldmiðla er þó mjög misjöfn.  Evra og norðurlandamyntirnar hafa allar hækkað í kringum 7% í verði en dollar og japanskt jen hafa nær ekkert breyst í verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×