Viðskipti innlent

Grunur um umboðssvik hjá stjórnendum SpKef

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Rannsókn Fjármálaeftirlitsins á málefnum Sparisjóðsins í Keflavík er langt komin en grunur leikur á að umdeildar lánveitingar sparisjóðsins falli undir umboðssvik. Átján milljarðar króna eru í sparisjóðnum vegna innistæðna en afar lítið fé til að mæta innistæðum og þarf ríkið að borga brúsann.

Í september 2008, rétt fyrir bankahrunið, lét FME gera skýrslu um starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík, fjallað hefur verið um skýrsluna í fjölmiðlum að undanförnu, en meginatriðin í skýrslunni, sem er mjög harðorð, eru að:

Gerð útlánasafns sparisjóðsins var vafasöm, óhóflegrar bjartsýni gætti í útlánum og hirðuleysi í innheimtu lána, regluverk var í ólestri, stjórn sjóðsins sinnti ekki eftirlitshlutverki sínu, þá skorti fullnægjandi reglur um útlánaáhættu, reglur um heimildir sparisjóðsstjóra til lánveitinga voru óskýrar, og í mörgum tilvikum voru fjárhæðir trygginga lægri en lána og eignir sparisjóðsins voru ofmetnar, svo eitthvað sé nefnt.

Ábyrgðin liggur hjá sparisjóðsstjóra og stjórn

Æðsta ákvörðunarvald Sparisjóðsins í Keflavík milli stofnfjárfunda var hjá stjórn en Þorsteinn Erlingsson var stjórnarformaður sparisjóðsins. Geirmundur Kristinsson var sparisjóðssstjóri, sótti umboð sitt til stjórnarinnar og bar ábyrgð á daglegum rekstri. Það má því segja að þessir tveir menn beri mesta ábyrgð á sparisjóðnum, en Kristján Gunnarsson, sem var aðeins tímabundið stjórnarformaður, sagði af sér stjórnarformennsku hjá Starfsgreinasambandinu í vikunni vegna gagnrýni á hans störf hjá SpKef. Og þá lét hann af trúnaðarstörfum fyrir ASÍ og lífeyrissjóðinn Festu af sömu ástæðu.

Skuldbindingar vegna innistæðna hjá Sparisjóðnum í Keflavík nema átján milljörðum króna, en ekki eru til peningar til að mæta skuldbindingum vegna innistæðna og þarf ríkissjóður að leggja sjóðnum til fé því yfirlýsing ríkisstjórnar um að allar innistæður séu tryggðar er enn í fullu gildi. Sparifjáreigendur sem eiga innistæður hjá sjóðnum þurfa því ekki að óttast um sparifé sitt. Talsmaður fjármálaráðuneytisins sagði við Stöð 2 í dag að ekkil lægi fyrir hversu mikið fé ríkissjóður myndi leggja nýju félagi sem stofnað var utan um rekstur Sparisjóðsins í Keflavík, en þeir fjármunir verða m.a til að tryggja að SpKef geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum.

Óháð skýrsla Deloitte um málefni SpKef á leið inn á borð FME

Fjármálaeftirlitið tók þá ákvörðun fyrir nokkru síðan að öll fjármálafyrirtæki sem færu í slitameðferð skyldu rannsökuð af óháðum sérfræðingum. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 liggur nú fyrir óháð rannsókn á málefnum Sparisjóðsins í Keflavík frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte og verður nýrri skýrslu Deloitte um sjóðinn skilað til FME á næstunni.

Grunur leikur á að margvíslegar reglur hafi verið brotnar í rekstri sparisjóðsins. Eru háar lánveitingar sjóðsins án fullnægjandi trygginga til einstaklinga og lögaðila taldar falla undir umboðssvik, samkvæmt almennum hegningarlögum, en umboðssvik er það þegar maður sem hefur fengið aðstöðu t.d að hafa fjárreiður á hendi fyrir aðra og misnotar þessa aðstöðu. Getur brotið varðað allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar. Grunur leikur að á að Geirmundur Kristinsson hafi farið út fyrir heimildir sínar og umboð sem sparisjóðsstjóri. Hann hefur þó ekki ekki réttarstöðu grunaðs manns í skilningi laga um meðferð sakamála, þar sem málið er ekki komið á borð sérstaks saksóknara. Stöð 2 náði tali af Geirmundi í dag en hann vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið. Í grein sem hann birti nýlega í Víkurfréttum segist hann ekki „eiga sjö dagana sæla" um þessar mundir vegna umfjöllunar um málefni Sparisjóðsins í Keflavík, en hann hafi þau 45 ár sem hann gegndi starfi sparisjóðsstjóra starfað af fullum heilindum í þágu sjóðsins og viðskiptavina hans. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×