Viðskipti innlent

Arion banki við Hlemm vafinn inn í límband

Arion banki, Apear Collective og Urban Utd. munu standa fyrir óvenjulegri uppákomu á Menningarnótt fyrir utan útibú Arion banka við Hlemm. Þar mun listahópurinn Apear Collective umturna svæðinu með hjálp límbands. M.a. mun útibúi Arion banka verða pakkað inn í límband.

Í tilkynningu segir að um 20 listamenn muni taka þátt í verkefninu en Apear Collective er hópur fjöllistamanna sem koma víða að. Meðan á gjörningnum stendur munu plötusnúðar spila og börn fá blöðrur frá bankanum. Við Hlemm og í nánasta umhverfi verða svo ótal uppákomur í gangi yfir daginn. Markmiðið er að búa til skemmtilega stemningu á svæðinu og gera borgina líflegri.

Límbandslist („Tape Art“) er tiltölulega nýtt form götulistar og verður þetta stærsti viðburður sinnar tegundar á Íslandi. Oftar en ekki er götulist í hugum fólks tengd skemmdarverkum og sjónmengun, en límbandslist er jákvætt form götulistar sem eyðileggur ekkert og auðvelt er að fjarlægja listaverkið.

Sérstakur gestur verður Fejzo Kosir en hann er í fremstu röð listamanna í Evrópu sem hafa tileinkað sér þetta sérstaka listform.

Listamennirnir munu hefja gjörninginn klukkan ellefu um morguninn og halda áfram fram eftir degi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×