Handbolti

Hrafnhildur: Ætlaði alltaf að spila lengur en Óli Stef

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir fagnar með stelpunum í leikslok.
Hrafnhildur Skúladóttir fagnar með stelpunum í leikslok. Mynd/Pjetur
Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, var kát eftir sjö marka sigur íslensku stelpnanna á Kína í lokaleik sínum í riðlakeppni HM í Brasilíu í kvöld. Íslenska liðið komst áfram í sextán liða úrslit og vann 3 af 5 leikjum sínum í riðlinum.

„Þetta er frábær árangur og framar björtustu vonum. Það er stórkostlegt að ná sextíu prósent sigurhlutfalli í riðlinum. Ég er mjög sátt við þetta," sagði Hrafnhildur í viðtali við Sigurð Elvar Þórólfsson í þættinum hans Þorsteins Joð á Stöð 2 Sport.

„Við áttum alveg eins von á þessu. Við vorum búnar að segja það að við ættum möguleika gegn Kína og Angóla og ættum að geta tekið Þýskaland á góðum degi. Ég átti alveg von á því að við gætum komist í sextán liða úrslitin en þetta er samt frábær árangur," sagði Hrafnhildur en var hún farin að gæla við annað sætið.

„Ég er tölugúru dauðans þannig að ég spái í alla tölfræði og var því búin að reikna þetta allt út. Það var ekki allt búið að fara eins og við vildum í hinum leikjunum en svona er þetta bara, Rússabjörninn verður bara tekinn," sagði Hrafnhildur ákveðin.

Liðið er ungt og flestar stelpurnar í liðinu eiga margar heimsmeistarakeppnir framundan en hvað með Hrafnhildi sjálfa?

„Ég er ekki nema 34 ára og á þá kannski tíu ár eftir. Ég var búin að segja það að ég ætlaði alltaf að vera lengur að en Ólafur Stefánsson. Það var alltaf markmiðið en svo hættir hann ekkert þannig að ég veit ekki hvað ég geri," sagði Hrafnhildur í léttum tón.

„Það er klárt að ég er ekkert að fara að hætta á næstu mánuðum. Ég hef ennþá gaman að þessu og á meðan að skrokkurinn leyfir þá held ég áfram. Það er mjög skemmtilegt að vera í handbolta þegar vel gengur," sagði Hrafnhildur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×