Viðskipti innlent

Eftirspurnin sýnir svelti íslenskra fjárfesta

Greinandi segir miklar eftirspurn eftir hlutabréf í Högum sýna hversu sveltir íslenskir fjárfestar eru af fjárfestingartækifærum. Hann segir fleiri félög svo sem N1 og TM vera vænlega kosti á hlutabréfamarkað.

Hlutabréfaútboðið í Högum sem fram fór í síðustu viku fór fram úr björtustu vonum seljenda, áttfalt meiri eftirspurn var eftir bréfunum en framboð og fengu fjárfestar einungis brot af þeim hlutum sem þeir óskuðu eftir.

„Þetta í rauninni segir bara til um hversu sveltir fjárfestar eru af fjárfestingartækifærum á markaðnum í dag," segir Ari Freyr Hermannsson, greinandi hjá IFS greiningu.

Hann segir þetta samt ekki endilega gefa til kynna að verðið eigi eftir að rjúka upp þegar viðskipti með félagið hefst í kauphöll íslands á fimmtudaginn.

„Þetta mun hafa áhrif, en það sem að getur gerst er að bréfin taki einhverja hækkun og taki síðan í kjölfarið á því einhverja smávegis hækkun vegna þess að einhverjir ætla að ná sér í einhvern skyndigróða í rauninni."

Hann segir fólk þurfa að hugsa um hlutabréfakaup sem langtímafjárfestingu og ekki láta trufla sig af skammtímahreyfingum á markaði. Þá segir hann að eftirspurnin sýni að fjárfestar vilji greinilega fleiri félög á markað en huga þurfi að því að það séu félög sem almennir fjárfestar skilja.

„Félög eins og N1 eða Tryggingamiðstöðin eða einhver svona rekstrarfélög sem auðvelt er að sjá hvernig ganga, eins og í tilfelli Haga þá sjá fjárfestar hvernig Högum gengur bara með að labba inn í búðirnar," segir Ari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×