Viðskipti innlent

Skuldabréfakaup Seðlabankans vekja eftirtekt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson er seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson er seðlabankastjóri.
Undanfarna daga hefur Seðlabanki Íslands keypt ríkisskuldabréf fyrir um það bil 16 milljarða króna að nafnverði, eftir því sem greint er frá í Morgunkorni Íslandsbanka. Að stærstu leyti er um að ræða stutt ríkisbréf en bankinn keypti fyrir 3,4 milljarða króna að nafnverði í RIKB12, 6,3 milljarða króna í RIKB13 og 2,8 milljarða króna í RIKB16. Þá keypti Seðlabankinn einnig fyrir 3,7 milljarða króna í RIKB25.

Greining Íslandsbanka segir að þessi viðskipti hafa vakið eftirtekt þar sem að Seðlabankinn hefur hingað til ekki fjárfest í ríkisskuldabréfum, þó bankanum sé það heimilt samkvæmt lögum. Þá hafi Seðlabankinn ekki sent frá sér neina tilkynningu sem skýri frá þessum viðskiptum og samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum sé alls ekki víst að nein tilkynning verði send út. Þetta hafi valdið nokkrum titringi á skuldabréfamarkaði við opnun í morgun, en þegar þetta er ritað hefur krafa lengri flokka óverðtryggðra ríkisbréfa hækkað um 1-7 punkta frá dagslokum í gær. Ætlun bankans hafi þó varla verið að valda ölduróti á skuldabréfamarkaði og má ætla að þeir muni hafa það til hliðsjónar þegar og ef þeir selja þessi bréf að nýju.

Seðlabankinn hefur veitt Íslandsbanka þær upplýsingar að þessi aðgerð tengist afléttingu gjaldeyrishafta. Seðlabankinn vildi ekki veita fréttastofu frekari upplýsingar um málið, nema að keypt hafi verið af erlendum aðila. Íslandsbanki segir að málið vekji eftirtekt ekki síst vegna þess að hingað til hafi afnám gjaldeyrishafta verið opið ferli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×