Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöftin á Íslandi samræmast reglum ESA

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gjaldeyrishöftin á Íslandi eru í samræmi við reglur um EES, samkvæmt nýjum dómi EFTA dómstólsins sem var birtur í dag. Í kjölfar erfiðleika íslenska fjármálakerfisins síðla árs 2008, innleiddu íslensk stjórnvöld reglur um gjaldeyrishöft, þar sem meðal annars var kveðið á um tímabundið bann við innflutningi íslenskra króna. Pálmi Sigmarsson, sem er íslenskur ríkisborgari búsettur í Bretlandi, sótti um undanþágu til Seðlabanka Íslands frá þessu banni, í því skyni að flytja inn til landsins 16,4 milljónir íslenskra króna sem hann hafði keypt á aflandsmarkaði.

Seðlabankinn hafnaði umsókninni og efnahags- og viðskiptaráðuneytið staðfesti þá niðurstöðu með úrskurði. Pálmi bar ákvörðun Seðlabankans undir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann heldur því fram að ákvörðunin sé bæði brot á íslenskum lögum og ósamrýmanleg reglum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga.

Héraðsdómur Reykjavíkur leitaði svo eftir ráðgefandi áliti frá EFTA dómstólnum um túlkun á 43. grein EES-samningsins, þar sem heimild er veitt til að víkja frá reglum um frjálst flæði fjármagns. EFTA dómstóllinn benti á að alvarlegar aðstæður hefðu skapast á Íslandi eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008. Við þessar aðstæður væru uppfyllt efnisleg skilyrði fyrir því að grípa til verndarráðstafana samkvæmt umræddri grein í EES samningnum. Þá taldi dómstóllinn jafnframt að engin gögn hefðu verið lögð fyrir dómstólinn sem bentu til þess að úrræðin sem gripið var til hafi brotið í bága við meðalhófsregluna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×