Handbolti

HM 2011: Rússar spila ekki um verðlaun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Evgeny Trefilov, hinn skrautlegi þjálfari Rússa.
Evgeny Trefilov, hinn skrautlegi þjálfari Rússa. Mynd/Pjetur
Heimsmeistarar Rússlands, sem slógu stelpurnar okkar úr leik í 16-liða úrslitum HM í Brasilíu, töpuðu í dag fyrir Frökkum í fjórðungsúrslitum keppninnar, 25-23.

Tíðindin eru óvænt enda höfðu Rússar haft mikla yfirburði í leikjum sínum til þessa á mótinu og margir reiknuðu með að þeir myndu fara alla leið í ár eins og svo oft áður.

Rússland varð heimsmeistari í Kína árið 2009 en einnig árin 2001, 2005 og 2007. Liðið hlaut einnig silfur á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og hefur þar að auki þrívegis unnið til verðlauna á Evrópumeistaramótum.

Stelpurnar okkar stóðu í Rússum í 40 mínútur á sunnudaginn en þá gáfu þær rússnesku í og unnu að lokum ellefu marka sigur, 30-19.

Í dag var jafnræði með liðunum en Frakkar náðu að síga fram úr í upphafi seinni hálfleiks. Staðan var 24-19 þegar tíu mínútur voru til leiksloka og skoruðu þá Rússar fjögur mörk í röð og náðu að minnka muninn í 24-23. Frakkar juku aftur forystuna í tvö mörk og reyndist það síðasta mark leiksins.

Alexandra Lacrabere var markahæst hjá Frökkum með fimm mörk en Emilia Turei skoraði flest fyrir Rússa, sjö talsins.

Fjórðungsúrslitin fara öll fram í dag og verða tveir leikir í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld. Frakkland mætir annað hvort Angóla eða Danmörku í undanúrslitum keppninnar en síðastnefndu tvö liðin mætast klukkan 16.30.

Þátttöku Rússa er þó ekki lokið í Brasilíu en spilað verður upp á 5.-8. sæti keppninnar.

Hér má sjá leikjayfirlit og úrslit á HM kvenna í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×