Viðskipti innlent

Líklegt að erlendir lögmenn haldi uppi vörnum hjá EFTA dómstólnum

Líklegt þykir að erlendir lögfræðingar verði fengnir til að halda uppi vörnum fyrir Ísland í Icesave málinu þegar kemur fyrir EFTA dómstólinn. Utanríkisráðherra mun hafa stjórnskipulegt forsvar. ESA, eftirlitsstofnun EFTA, ákvað í gær að vísa Icesave deilunni til EFTA dómstólsins vegna meinra brota Íslands á tilskipun um innstæðutryggingar.

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur haldið utan um Icesave málið frá því síðasta samningi var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í vor.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að utanríkisráðuneytið muni taka við málinu eftir að ESA ákvað að stefna Íslendingum.

„Stjórnskipulaga er það væntanlega þannig að þegar út í málareksturinn er komið er það utanríkisráðuneytið, skilst mér, sem yfirleitt er með stjórnskipulegt forsvar en þetta er mál sem varðar mörg ráðuneyti og hagsmuni ríkissins þannig að það er augljóst mál að hér þurfa nokkur ráðuneyti innan stjórnarráðsins að vinna saman síðan er mikilvægt að hafa gott samráð við utanríkismálanefnd og reyna að tryggja sem mesta samstöðu um það hvernig við stöndum að okkar málsvörnum.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu þykir líklegt að erlendur lögmaður verði fengin til að flytja málið fyrir hönd Íslands. Lögmaðurinn mun síðan vinna náið með sérstöku teymi íslenskra lögfræðinga og embættismanna.

Ekki liggur fyrir hversu langur tími kann líða áður en EFTA dómstólinn kemst að niðurstöðu í málinu. Sérfræðingar telja þó líklegt að málareksturinn taki að minnsta kosti eitt ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×