Viðskipti innlent

Hundruð nýrra íbúða munu rísa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs á von á því að hundruð nýrra íbúða geti risið.
Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs á von á því að hundruð nýrra íbúða geti risið.
Um 300 nýjar íbúðir eru í byggingu á bestu stöðum í Reykjavík og á bilinu 3-500 gætu farið í byggingu á næsta ári, segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar. Borgin samþykkti húsnæðisstefnu í haust og hefur verið að gera úttektir á því hvernig borgin getur tekið þátt í því að byggja upp fjölbreyttara húsnæðiskerfi, einkum með leiguíbúðum. Formaður borgarráðs, Dagur Eggertsson, segir mikilvægt að hafa gott úrval leiguíbúða því óraunhæft sé að gera ráð fyrir því að ung fólk muni skuldsetja sig upp í rjáfur í framtíðinni vegna fasteignakaupa.

„Núna sjáum við að það er mjög mikil eftirspurn eftir vel staðsettum leiguíbúðum og viljum útfæra leiðir til að gera það í samvinnu við langtímafjárfesta. Við segjum langtíma vegna þess að það skiptir gríðarlega miklu máli að leigumarkaðurinn sé öruggari en hann er núna," segir Dagur. Hann bendir á að leiga á Íslandi hafi hingað til verið tengd við óöryggi, það að flytja ótt og títt á milli skólahverfa með börn og svo framvegis. Þetta er eitt af stóru viðfangefnunum eftir hrun vegna þess að það er algjörlega óraunhæft að nýjar kynslóðir séu að fara að skuldsetja sig upp í rjáfur," segir Dagur. Ef svo væri þá værum við ekki að læra af mistökum í aðdraganda hrunsins. En Dagur segir að mótun húsnæðisstefnu sé jafnframt lykilatriði í því að fólk laðist að borginni til að vinna og lifa.

Dagur segir að Reykjavíkurborg sé þegar komin í samstarf með Félagsstofnun stúdenta sem sé að reisa um 300 íbúðir á svæði Háskóla Íslands og jafnframt sé búið að úthluta þeim lóðir að Brautarholti 7. Fundað hafi verið með fulltrúum Félagsstofnunar stúdenta og fulltrúum HR í þessari viku um húsnæðismál. Þá segir Dagur að verið sé að íhuga uppbyggingu á svæði í Kringum Hlemm þar sem kæmist fyrir fjöldi af litlum og meðalstórum íbúðum. „Þar sem þú getur búið án þess að eiga bíl, sem íþyngir pyngjunni hjá mörgum," segir Dagur. Hann segir að Reykjavíkurborg hafi verið í samstarfi við Regin, fasteignafélag Landsbankans, um uppbygginguna á Hlemmi. „Það félag er komið af stað með þróun reits í Einholti og Þverholti þar sem gætu verið reistar á milli 3- 400 íbúðir," segir Dagur.

Eins og fyrr segir eru þessar áætlanir hluti af íbúðastefnu sem Reykjavíkurborg hefur gert en líka hluti af atvinnustefnu sem Reykjavíkurborg hefur nú sett í umsagnarferli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×