Viðskipti innlent

Lýsing tapaði í héraðsdómi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Málið snýst um fjármögnun stórra atvinnutækja.
Málið snýst um fjármögnun stórra atvinnutækja.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í morgun að fjármögnunarleigusamningar sem Lýsing gerði við viðskiptavini sína hafi í raun verið gengistryggð íslensk lán. Slíkir samningar hafi því verið ólöglegir. Dómurinn var kveðinn upp í máli sem fyrirtækið Smákranar ehf höfðuðu gegn Lýsingu.

Hæstiréttur hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að slíkir samningar sem Íslandsbanki gerði við Kraftvélaleiguna hafi verið ólöglegir. SP fjármögnun, sem er nú deild innan Landsbankans, og Íslandsbanki töldu að dómur Hæstaréttar væri fordæmisgefandi fyrir alla þá fjármögnunarleigusamninga sem fyrirtækin gerðu við viðskiptavini sína en Lýsing taldi dóminn ekki fordæmisgefandi fyrir sig. Fyrirtækið myndi því bíða dóms í Smákranamálinu.

Samtök iðnaðarins lýstu vonbrigðum með þá túlkun Lýsingar og lögmaður Samtaka iðnaðarins sakaði Lýsingu um að beita undanbrögðum. „Við undrumst að leyfisskyld fyrirtæki á fjármálamarkaði skuli reyna að beita svona undanbrögðum," sagði Sigurður B. Halldórsson, lögmaður Samtaka iðnaðarins, þá.

Ljóst er að milljarðahagsmunir eru í húfi fyrir Lýsingu því fyrirtækið gerði 6500 samninga af þessu tagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×