Viðskipti innlent

Spáir hægfara styrkingu á krónunni á næstunni

Greining Íslandsbanka spáir því að gengi krónunnar muni styrkjast hægt eftir að árstíðabundin niðursveifla þess í vetur er yfirstaðin.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um gengisspánna.  „Við reiknum með því að árstíðarsveifla valdi því að gengi krónunnar muni lækka eftir því sem líður á veturinn,“ segir í spánni.

„Straumur gjaldeyris vegna erlendra ferðamanna hefur haft  umtalsverð áhrif á gengisþróunina og reiknum við með því að svo verði áfram. Eftir því sem gjaldeyrismarkaðurinn verður virkari má hins vegar reikna með því að þessi áhrif fjari út.

Undirliggjandi þróun gengis krónunnar þ.e. þegar árstíðarsveiflan hefur verið skilin frá er til styrkingar næstu misserin og árin.“

Þá segir að framundan sé hægfara hagvaxtartímabil þar sem dregur úr slakanum í hagkerfinu og það leitar í átt að jafnvægi. Eðlilegt er að það jafnvægi verði við skilyrði hærra raungengis. Reiknar greiningin með því að framhald verði á þessari þróun á næstunni. Spáir hún ríflega 2% hækkun nafngengis krónunnar á milli áranna 2011 og 2012 og tæplega 2% hækkun á milli áranna 2012 og 2013.  

„Afnám gjaldeyrishafta er einn stærsti óvissuþáttur gengisspárinnar. Reiknum við með því að ekki verði farið út í afnámið ef einhverjar líkur eru á því að það raski þeim stöðugleika sem náðst hefur á gjaldeyrismarkaði og tefli í hættu þeim ávinningi sem samstarf stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur skilað. Afnám haftanna verður að okkar mati hægfara ferill og mun ekki leiða til gengisfalls krónunnar,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×