Viðskipti innlent

Góður gangur í byggingu nýrrar kerverksmiðju Fjarðaráls



Framkvæmdum miðar vel áfram við byggingu nýrrar kersmiðju Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði og fögnuðu starfsmenn byggingaverktakanna nýlega 100 þúsund slysalausum vinnustundum við framkvæmdirnar. Tæplega hundrað manns vinna við bygginguna. Kostnaður vegna framkvæmdanna er áætlaður nálægt fjórum milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjarðaráli. Þar segir að starfsemi kersmiðjunnar eigi að hefjast í apríl á næsta ári eftir rúmlega 17 mánaða framkvæmdatíma, en fyrsta skóflustungan var tekin í byrjun nóvember á síðasta ári. Í kringum 60 manns munu vinna í kersmiðjunni.

Alls eru 336 ker í álveri Fjarðaáls, þar sem framleidd eru tæplega 3 tonn af áli á sólarhring. Áætlað er að endurfóðra 45 ker árið 2012 og 110 ker árin 2013 og 2014. Flatarmál kersmiðjunnar er rúmlega 4000 fermetrar en hún skiptist í þrjá hluta, kerfóðrunarbyggingu, kerbrotabyggingu og skrifstofubyggingu. Hægt verður að endurfóðra þrjú ker í einu og mestu afköst verða tvö og hálft ker á viku.



Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar hefur tekið að sér að fóðra kerin en starfsmenn Fjarðaáls munu sjá um gæðaeftirlit með vinnu og hráefnum, innkaup á hráefnum og sam­hæfingu við aðra starfsemi Fjarðaáls.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×