Viðskipti innlent

Fyrsta skráning skuldabréfa fjármálafyrirtækis frá hruni í dag

Mynd: GVA.
Mynd: GVA.
Fyrsta skráning skuldabréfa útgefnum af fjármálafyrirtæki á Íslandi frá hruni 2008 mun eiga sér stað í Kauphöllinni í dag.Um er að ræða skuldabréfaútgáfu af hálfu Íslandsbanka.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka munu flytja stutt erindi í tilefni af því.

Dagskráin hefst þegar klukkan er gengin 20 mínútur í tíu en síðan verður bjölluhringing við opnun markaðarins klukkan hálftíu.

„Okkur er mikil ánægja að taka skuldabréf Íslandsbanka til viðskipta en þessi útgáfa er jákvætt skref fyrir fjármálakerfið og mikilvægur þáttur í uppbyggingu íslenska verðbréfamarkaðarins. Við væntum að þetta verði öðrum fyrirtækjum hvatning til að sækja inn á skuldabréfamarkaðinn í auknum mæli," segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar í tilkynningu.

„Við erum afar ánægð að þessum áfanga er nú náð enda eru þetta ánægjuleg tímamót á íslenska fjármálamarkaðnum eftir hrun. Við höfum lagt áherslu á að útgáfan verði á Íslandi til að bjóða íslenskum fjárfestum nýjan fjárfestingarkost. Er það meðal annars gert til að styrkja íslenska fjármálamarkaðinn en útgáfan er afar mikilvægt skref í uppbyggingu hans," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×