Viðskipti innlent

Hagnaður Íslandsbanka 11,3 milljarðar á fyrstu 9 mánuðum ársins

Hagnaður Íslandsbanka nam rúmlega 11,3 milljörðum kr. eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins en var tæplega 13,2 milljarðar kr. fyrir sama tímabil í fyrra.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að arðsemi eiginfjár sé 11,9%,reiknað á ársgrundvelli, sem er í takti við arðsemiskröfu Bankasýslu ríkisins og annarra eigenda. Skattar og opinber gjöld tímabilsins eru áætluð um 4,1 milljarður kr.

Heildarafskriftir og eftirgjafir til einstaklinga og fyrirtækja frá stofnun bankans nema um 280 milljörðum króna.

Um 17.700 einstaklingar og 2700 fyrirtæki hafa fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum.

Heildarstærð efnahagsreiknings í lok september var 679 milljarðar kr. og hefur lítið breyst frá árslokum 2010. Eiginfjárhlutfall í lok september nam 28,8% en það lágmark sem Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sett bankanum er 16%. Eiginfjárhlutfall í árslok 2010 var 26,6%.

Lausafjárstaða bankans er sterk. Í lok þriðja ársfjórðungs voru lausafjárhlutföll bankans samkvæmt skilgreiningu FME 43% og 27% en FME gerir kröfu um að þessi hlutföll séu yfir 20% og 5%.

"Þetta uppgjör endurspeglar að grunnrekstur bankans er að styrkjast og jafnvægi hefur aukist í rekstri Íslandsbanka. Árið 2011 hefur verið helgað fjárhagslegri endurskipulagningu, bæði fyrirtækja og einstaklinga," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka í tilkynningunni.

„Frá því að nýi bankinn var stofnaður hafa um 280 milljarðar króna verið afskrifaðir eða niðurfærðir til 2.700 fyrirtækja og 17.700 einstaklinga sem nú geta horft fram á veginn. Íslandsbanki hefur lagt sitt lóð á vogaskálarnar í enduruppbyggingu fjármálamarkaðarins hér á landi og hefur undanfarið unnið að útgáfu á sértryggðum skuldabréfum í kauphöll Íslands en bankinn er fyrsta fjármálafyrirtækið sem gefur út verðbréf eftir hrun.

Að auki náðum við stórum áfanga þegar kaup Íslandsbanka á Byr voru samþykkt en sameiningin er einnig liður í mikilvægri hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði. Með sameiningunni varð til eitt öflugasta fjármálafyrirtæki á Íslandi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×