Viðskipti innlent

Fjárhagur hins opinbera batnar milli ára

Fjárhagur hins opinbera hefur batnað töluvert frá því í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi ársins var tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 19 milljarða króna eða sem nemur 4,6% af áætlaðri landsframleiðslu ársfjórðungsins og 10,7% af tekjum þess. Á sama tíma í fyrra var tekjuafkoman neikvæð um ríflega 20 milljarða króna eða 5,2% af landsframleiðslu.

Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofunnar þar sem fjallað er um fjármál hins opinbera á ársfjórðungnum. Fyrstu níu mánuði ársins reyndist tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 56 milljarða króna eða 4,7% af landsframleiðslu þessa tímabils, en til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 68 milljarða króna á sama tíma í fyrra eða 5,9% af landsframleiðslu.

Tekjur hins opinbera námu rúmlega 502 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við um 475 milljarða króna árið áður og er hækkunin milli ára 27 milljarðar króna eða 5,7%. Sem hlutfall af landsframleiðslu tímabilsins námu tekjurnar 42,2%.

Mest er hækkunin í tekjusköttum sem skiluðu 22 milljörðum króna meiri tekjum á tímabilinu en árið áður. Þá skiluðu vöru- og þjónustuskattar 3,9 milljörðum króna meiri tekjum og tryggingagjöldin 3,7 milljörðum króna meiri tekjum. Aðrar tekjur, aðallega vaxtatekjur og sala á vöru og þjónustu, skiluðu hins vegar um fjögurra milljarða króna minni tekjum.

Útgjöld hins opinbera reyndust um 558 milljarðar króna á sama tíma eða sem svarar til 46,9% af landsframleiðslu tímabilsins og hækkuðu um 2,8% milli ára. Stærstu útgjaldaliðirnir eru laun sem áætluð eru 174 milljarðar króna á tímabilinu, kaup á vöru og þjónustu 144 milljarðar króna og félagslegar tilfærslur til heimila ríflega 100 milljarðar króna; samtals hækka þessir liðir um 5,7% milli tímabilanna.

Þá er áætlað að vaxtagjöld hins opinbera verði um 61 milljarður króna fyrstu 9 mánuði ársins og opinber fjárfesting 27 milljarðar króna (lækki um 20%). Aðrir útgjaldaliðir hafa staðið í stað eða hækkað lítillega í krónum talið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×