Viðskipti innlent

Söluvirði útboðsins hjá Högum tæpir 5 milljarðar

Endanleg stærð útboðsins hjá Högum nemur 30% af útgefnum hlutum félagsins og endanlegt útboðsgengi er 13,5 krónur á hlut til allra kaupenda í útboðinu sem eru um 3.000 talsins. Heildarsöluandvirði útboðsins nemur rétt tæpum 5 milljörðum króna.

Í tilkynningu segir að vegna mikillar eftirspurnar fengu fjárfestar ekki nema brot af þeim hlutum sem þeir buðu í.

Um 12,5% af útgefnum hlutum Haga var úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig fyrir kaupum að andvirði frá 100.000 krónum og upp í 25 milljónum króna og var hverjum aðila úthlutað hlutabréfum að andvirði um 0,1-1,5 milljónum króna.

Um 17,5% af útgefnum hlutum Haga var úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig fyrir kaupum að andvirði 25-500 milljónum króna og var hverjum aðila úthlutað hlutabréfum að andvirði um 1,5-90 milljónum króna.

Í útboðinu bárust gild tilboð um kaup fyrir alls um 40 milljarða króna og voru um 95% þeirra gerð á genginu 13,5 kr./hlut eða með samþykki um hvaða gengi sem yrði ákveðið á bilinu 11-13,5 kr./hlut. Ákvörðun seljanda um endanlega stærð útboðs, verð, skiptingu og úthlutun tók mið af fjárhæð og gengi áskrifta frá fjárfestum, eðli og stærð fjárfesta, markmiðum og skilmálum útboðsins sem gerð var grein fyrir í lýsingu Haga dagsettri 26. nóvember 2011.

Markmið seljandans var að útboðið markaði grunninn að dreifðu eignarhaldi almennings og fagfjárfesta á Högum, auk þess að fá ásættanlegt verð fyrir eign sína, að því er segir í tlkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×