Viðskipti innlent

Hagvöxturinn verði 3,2% í ár

Daníel Svavarsson.
Daníel Svavarsson.
Hagfræðideild Landsbankans telur að hagvöxtur á næstu árum muni fyrst og fremst byggja á fjárfestingu en ekki einkaneyslu eins og aðrir hafa lagt megináherslu á. Ársrit deildarinnar, Þjóðhagur, kom út í fyrsta sinn í dag.

Í tilefni af útgáfunni stóð Landsbankinn fyrir opnum fundi á Hótel Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni "Fjárfesting; forsenda hagvaxtar næstu árin."

Á fundinum kynnti Dr. Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, þjóðhagsspá bankans til næstu þriggja ára þar sem því er meðal annars spáð að hagvöxtur í ár verði um 3,2%. Að hans mati má vöxt landsframleiðslunnar á þessi ári einkum rekja til aukinnar einkaneyslu. Á næsta ári verður hagvöxtur minni, eða um 1,7% og að mati Hagfræðideildar bankans verður hann þá að mestu knúinn áfram af fjárfestingu sem leggur grunn að frekari vexti á komandi árum.

„Á meðal þess sem einnig kemur fram í Þjóðhagi er að orðið hafi viðsnúningur í landsframleiðslu það sem af er þessu ári til hins betra. Þá er gert ráð fyrir í spánni að verðbólga hækki nokkuð í byrjun næsta árs og verði 5,75% að meðaltali á fyrsta ársfjórðungi en hjaðni svo þegar líður á árið. Reiknað er með að stýrivextir haldist óbreyttir framan af árinu en hækki á ný undir árslok 2012,“ kemur fram í tilkynningu frá Landsbankinum.

Á fundinum fjallaði Freyr Hermannsson, forstöðumaður erlendra viðskipta á Alþjóðasviði Seðlabankans, um gjaldeyrishöftin, áhrif þeirra á fjárfestingu og áætlun Seðlabankans um að afnema þau, áætlun sem bankinn nefnir Fjárfestingaleið. „Fram kom í máli Freys að nýir fjárfestar sem eru reiðubúnir að fjárfesta hérlendis hafi haft samband við Seðlabankann og lýst yfir áhuga sínum.“

„Að lokum ræddi Dr. Sigurður B. Stefánsson, Eignastýringu Landsbankans, um eignastýringu í ljósi gjaldeyrishafta og óróa á erlendum mörkuðum í erindi sínu. Sigurður greindi frá skuldastöðu helstu ríkja heims og fjallaði um fjárfestingar á Íslandi m.a. með tilliti til gjaldeyrishafta og fátæklegra fjárfestingakosta á innlendum markaði sem stendur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×