Viðskipti innlent

Skatturinn á eftir fyrirtækjum sex ár aftur tímann

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ríkisskattstjóri hefur sent bréf til fjölda fyrirtækja vegna samsköttunar við skuldsettar yfirtökur sex ár aftur í tímann. Fjöldi fyrirtækja eiga yfir höfði sér endurálagningu skatta og fjárhæðirnar gætu hlaupið á milljörðum króna.

Í fjöldamörg ár hafa fyrirtæki túlkað ákvæði 31. greinar laga um tekjuskatt þannig að við samruna tveggja fyrirtækja með skuldsettri yfirtöku sé vaxtakostnaður vegna láns fyrirtækis A frádráttarbær frá hagnaði þess fyrirtækis sem tekið er yfir, fyrirtæki B, eins og sést á grafík sem fylgir sjónvarpsútgáfu fréttarinnar.

Undið ofan af framkvæmdinni

Núna vill embætti ríkisskattstjóra vinda ofan af þessari framkvæmd og hefur embættið sent á annan tug erinda til fyrirtækja þar sem embættið vill skoða endurálagningu sex ár aftur í tímann, en Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu. Skúli segir að fjárhæðirnar í þeim málum sem séu þegar til skoðunar hlaupi samtals á tugum ef ekki hundruðum milljóna króan. Nú þegar hefur verið ákveðin endurálagning á eitt fyrirtæki og fer það mál líklega fyrir dómstóla.

Aðalsteinn Hákonarson hjá RSK sagði að við samruna félaga af þessu tagi væri verið að leysa hagsmuni hluthafa og því kæmi vaxtakostnaður yfirtekna félaginu ekki við.

KPMG hefur fengið fjölda fyrirspurna frá fyrirtækjum sem hafa fengið bréf frá RSK og öðrum sem eru í svipaðri stöðu og hafa fengið spurnir af slíkum bréfum. Heimildarmenn fréttastofu segja að þetta mál sé alls ekkert gamanmál, en það sé býsna kaldhæðnislegt að þau fyrirtæki sem lifðu kreppuna af og farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, fái hugsanlega náðarhöggið frá skattinum.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, sagði fjárhagslega endurskipulagningu ekki málefnalega málsástæðu ef fyrirtæki hefði vanrækt skattsskyldur sínar árin á undan og fyrirkomulag skattamála hefði ekki verið í samræmi við lög.

Undrast vinnubrögð RSK

Alexander Edvardsson, forstöðumaður skattasviðs KPMG, segir menn þar á bæ undrast þau vinnubrögð RSK að segja fyrirkomulag, sem tíðkast hafi árum saman án athugasemda frá embættinu, ólögmætt. Auk þess sé þetta ekki í samræmi við þá túlkun á skattalögunum sem lögð hafi verið til grundvallar.

„Við teljum að þarna sé um eðlilegan frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða og það er hægt að líta til þess að félög sem eru samsköttuð, þ.e móðurfélag sem á meirihluta í öðru félagi, og heimilt að samskatta, þá eru þessi rekstrargjöld eðlilegur, frádráttarbær rekstrarkostnaður og tilgangurinn með samsköttuninni er að um eitt félag sé að ræða. Þegar félögin eru svo sameinuð og ekki er lengur um að ræða tvö félög sem eru samsköttuð, heldur eitt félag, þá er þetta allt í einu orðið ólöglegt og ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður. Okkur finnst þetta ekki standast," segir Alexander.

Verður það þá ekki dómstóla að skera úr um þetta? „Mér sýnist það, þetta eru það háar fjárhæðir sem þarna eru í spilinu, þetta hleypur á milljörðum veit ég að gætu orðið viðbótarskattar hjá félögum. Þannig að væntanlega endar þetta fyrir dómstólum." thorbjorn@stod2.is

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.