Viðskipti innlent

Segir framkomu Ögmundar ólíðandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristján er allt annað en sáttur við framkomu Ögmundar.
Kristján er allt annað en sáttur við framkomu Ögmundar. mynd/ gva.
Framkoma Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra gagnvart öðrum ráðherrum og stjórnarþingmönnum er ólíðandi, sagði Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar í samtali við Sigurjón Egilsson á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Kristján vildi þó ekki fullyrða að ríkisstjórnarsamstarfið væri á síðustu metrunum.

Með ummælum sínum um Ögmund vísaði hann til þess að hann hefði ekki haft nein samskipti við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra í aðdraganda ákvörðunar sinnar um að synja Nubo um leyfi til þess að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Kristján sagði að það væri venja í ríkisstjórn að ef um flókin mál væri að ræða þá væru málin fyrst kynnt í ríkisstjórn og menn fengu frest til næsta fundar til að skoða málið ofan í kjölinn. Málið væri svo afgreitt á næsta fundi.

Þá vísaði Kristján til ummæla Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns í hádegisfréttum RÚV í gær. Þar sagði Karl að heimild ráðherra til að veita Nubo undanþágu frá lögum til þess að kaupa jörðina á Grímsstöðum væri ekki fordæmisgefandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×