Viðskipti innlent

Fjölmargar leiðir færar fyrir Nubo

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björn Valur Gíslason segir einkennilegt ef forsenda viðskiptahugmyndar Nubo hafi verið að eignast land.
Björn Valur Gíslason segir einkennilegt ef forsenda viðskiptahugmyndar Nubo hafi verið að eignast land.
Fjölmargar leiðir eru fyrir Huang Nubo að koma að fjárfestingu í ferðaþjónustu á Íslandi, án þess að kaupa stórt landsvæði, segir Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG. Hann býst við því að ákvörðun innanríkisráðherra um að synja Nubo um leyfi til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum verði rædd á reglubundnum þingsflokkfundi á morgun. Hann segir að þingflokkurinn hafi ekki rætt málið áður.

Aðspurður hvort til greina komi að Nubo leigi land á Íslandi til uppbyggingar í ferðaþjónustu segir Björn Valur: „Ég held að það séu fullt af möguleikum fyrir þennan fjárfesti eins og aðra að koma að fjárfestingu í atvinnulífinu á Íslandi án þess að þurfa að kaupa hluta af landinu í leiðinni. Þessi úrskurður hefur ekkert með það að gera. Þetta snýr eingöngu að kaupum á landinu," segir Björn Valur.

Björn Valur segir það vera sína skoðun að allir ráðherrar, sama úr hvaða flokki þeir eru, hefðu komist að sömu niðurstöðu og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. „Þetta er lögformleg niðurstaða að vel athuguðu máli. Þetta snertir eingöngu þessi landakaup en snertir ekki þessa viðskiptahugmynd sem slíka, nema að hún hafi eingöngu verið bundin við landakaupin,“ segir Björn Valur.

Björn Valur segist ekki vita til þess að fyrirtæki hér á landi séu að kaupa upp lönd og jarðir til að reisa hótel eða verskmiðjur. Ég held að þau semji bara um þetta við sveitarfélög og jarðeigendur,“ segir Björn Valur. Hann segir að það sé mjög sérkennilegt að forsenda viðskiptahugmyndarinnar sé sú að eignast land en ekki viðskiptahugmyndin sjálf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×