Viðskipti innlent

Jón segir frumvarpið ekki fullbúið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Bjarnason hefur ekki verið með kveikt á GSM-símanum sínum í dag.
Jón Bjarnason hefur ekki verið með kveikt á GSM-símanum sínum í dag.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki svarað símtölum fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis í dag, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná í hann. Nú á sjötta tímanum sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að drög að kvótafrumvarpi sem birtar voru á vef ráðuneytisins í gær séu ekki fullbúið stjórnarfrumvarp eða tillögur ráðherra.

„Um er að ræða vinnuskjöl sem geta orðið umræðugrundvöllur. Tveir mánuðir eru nú liðnir frá því Alþingi afhenti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti þær umsagnir sem fram komu vegna frumvarps til nýrra laga um fiskveiðistjórnun frá síðastliðnu vori. Starfshópur fékk það hlutverk að fara yfir umsagnirnar og koma fram með sínar tillögur. Afrakstur af þeirri vinnu eru þau skjöl sem nú liggja fyrir," segir Jón í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Jón segir að sú ákvörðun að kynna þær almenningi hafi verið kynnt í minnisblaði sem lagt var fyrir ríkisstjórn og sé í anda opinnar stjórnsýslu og þess gagnsæis sem mælt sé fyrir um í yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar. „Það er von mín að tillögurnar verði grundvöllur málefnalegrar umræðu um stjórn fiskveiða," segir Jón að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×