Viðskipti innlent

Innbrot í persónuleg gögn brot á lögum um persónuvernd

Matthías Imsland.
Matthías Imsland.
„Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við okkar væntingar, enda lá alltaf ljóst fyrir að megintilgangur lögbannskröfunnar var að skaða orðspor skjólstæðings míns, fremur en nokkuð annað," segir í yfirlýsingu frá Jóhannesi Árnasyni hdl., verjanda Matthíasar Imsland, vegna þess að sýslumaðurinn í Reykjavík hefur hafnað lögbannskröfu Iceland Express.

Í yfirlýsingu Jóhannesar segir meðal annars að „Við lítum svo á að með þessu sé fullt atvinnufrelsi Matthíasar staðfest og vonum að þar með sé málarekstri gegn honum af hálfu Pálma og Iceland Express lokið - ekki síst í ljósi ummæla sem fallið hafa í fjölmiðlum um að félagið óttist ekki samkeppni."

Þá sakar Jóhannes Iceland Express og Pálma Haraldsson um að hafa beitt skjólstæðing sinn mikilli hörku. „Vafasamt má telja að það þjóni hagmunum nokkurs fyrirtækis að koma þannig fram við starfsmenn sína," segir í yfirlýsingunni.

Svo segir Jóhannes: „Að lokum má nefna að innbrot fyrirtækisins í persónuleg gögn starfsmanns er skýrt brot á lögum um persónuvernd, þó svo að skjólstæðingur minn hafi á þessari stundu ekki tekið ákvörðum um kæru vegna þessa."


Tengdar fréttir

Beiðni Iceland Express um lögbann var hafnað

Sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði í dag beiðni Iceland Express um lögbann vegna Matthíasar Imsland fyrrverandi forstjóra félagsins. Félagið vildi lögbann á að Matthías starfi með nýju félagi í flugrekstri í samkeppni við Iceland Express næstu 30 mánuði en hann er á meðal þeirra sem standa að flugfélaginu WOW. „Matthías er enn á launum á uppsagnarfresti frá Iceland Express, var síðast greitt laun upp á aðra milljón króna um þessi mánaðamót, er með síma, fartölvu og heimatölvu frá fyrirtækinu og fær að auki greiddan bifreiðastyrk. Uppsagnarfrestur hans rennur ekki út fyrr en 1. apríl 2012,“ segir í yfirlýsingu frá Iceland Express. Félagið ætlar að kæra úrskurðinn til Héraðsdóms Reykjavíkur og fara fram á að honum verði hrundið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×