Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands hækkar að nýju

Skuldatryggingaálag á Ríkissjóð Íslands hefur hækkað nokkuð á síðustu dögum og stendur 300 punktum (3,00%) samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnaveitunni. Á árinu hefur álagið farið hæst upp í 330 punkta sem var í byrjun október en lægst niður í 200 punkta sem var snemma í júní. Að jafnaði hefur skuldatryggingaálag ríkissjóðs verið 260 punktar á árinu.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandabanka. Þar segir að álagið á Ísland sé jafnframt á ný orðið hærra en álagið á Belgíu sem stóð í 270 punktum í gær. Er skuldatryggingaálagið á Ísland þar með hið sjötta hæsta í samanburði við skuldatryggingaálag annarra ríkja Vestur Evrópu (17 í þessum samanburði).

„Vart þarf að nefna að álagið á Grikkland er enn langhæst af ríkjum Vestur Evrópu og þó víðar væri leitað. Næsthæst er álagið á Portúgal sem hefur þó mjakast aðeins niður við að undanförnu, en það var 971 punktar í lok dags í gær. Þar á eftir kemur Írland (697 punktar), Ítalía (446 punktar) og svo Spánn (341 punktar). Álagið er lægst á nágrannalönd okkar Noreg (38 punktar) og svo Svíþjóð (49 punktar)," segir í Morgunkorninu.

Við þetta má svo bæta að í dag fór skuldatryggingaálag Íslands í 322 punkta samkvæmt vefsíðunni keldan.is sem fær sínar upplýsingar frá Bloomberg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×