Viðskipti innlent

Forseti ASÍ gáttaður á stýrivaxtahækkun Seðlabankans

Gylfi Arnbjörnsson forseti er ómyrkur í máli vegna stýrivaxtahækkunar Seðlabankans. „Ég er algerlega gáttaður á þessari ákvörðun," segir Gylfi. „Heimurinn glímir við enn eina fjármálakreppuna og stjórnmálamenn og seðlabankar um allan heim eru að reyna skapa forsendur til að efnahagslífið rétti úr kútnum, m.a. með því að halda stýrivöxtum lágum.

Í tilkynningu um málið frá ASÍ er haft eftir Gylfa að hér á landi séu fjárfestingar í sögulegu lágmarki og hagspár sýna að óveðursskýin hrannast upp. Atvinnuleysi er mikið og ekki líður sú vika að ekki berist fréttir af hópuppsögnum. Við þessar aðstæður telur Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands rétt að slá á þenslu með vaxtahækkun. Það er óskiljanlegt. Þessi aðgerð Seðlabankans gerir það enn ólíklegra en áður að við náum að auka hér fjárfestingar og hagvöxt, að okkur takist að slá á atvinnuleysið og auka tekjur landsmanna.

„Með kjarasamningunum í maí náðu aðilar vinnumarkaðarins samkomulagi við ríkisstjórnina um að hér yrði mótuð efnahagsstefna sem byggi á ásækinni hagvaxtarstefnu með því að skapa aðstæður til þess að fjárfestingar gætu aukist verulegar. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur með þessari vaxtahækkun ákveðið að vinna beinlínis gegn þessum markmiðum með því að móta algerlega gagnstæða efnahagsstefnu. Enn og aftur mega landsmenn búa við ósamstæða hagstjórn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum," segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×