Viðskipti innlent

Kaupa hlut í Högum fyrir 1300 milljónir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson eru helstu eigendur Búvalla.
Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson eru helstu eigendur Búvalla.
Búvellir, eignarhaldsfélag sem er að mestu leyti í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, hefur ákveðið að nýta sér kauprétt á 10% hlut í Högum, sem rekur Bónus, Hagkaup og fleiri verslanir. Markaðsverð hlutarins er um 1,3 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í dag, en Fréttablaðið sagði frá því í gær að von væri á að þessi viðskipti myndu eiga sér stað.

Eignabjarg, dótturfélag Arionbanka, seldi 34% af hlut sínum í Högum til Búvalla í febrúar síðastliðnum. Sölunni fylgdi kaupréttur Búvalla á 10% hlut til viðbótar. Í tilkynningunni til Kauphallarinnar segir að viðskiptin muni endanlega eiga sér stað þann 23. nóvember en þá verða hlutirnir afhentir Búvöllum og greiðsla fara fram.

Eftir viðskiptin munu Búvellir eiga um 44% í Högum. Viðskiptin fara fram á genginu 11 á hlut og eru 121.758.584 hluta seldir. Miðað við það er markaðsverðmæti eignar Búvalla í Högum nú um 5,9 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×