Viðskipti innlent

2,5 milljarða hagnaður á þremur mánuðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hagnaður Landsbankans nam 2,5 milljörðum króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður sama tímabils á síðasta ári var 3,5 milljarðar króna.

Samanlagður hagnaður Landsbankans fyrstu níu mánuði ársins nemur rétt tæpum 27 milljörðum króna. Í fréttatilkynningu Landsbankans segir að stór hluti þess hagnaðar sé hækkun hlutabréfa í eigu Horns fjárfestingarfélags hf., dótturfélags Landsbankans, á fyrsta ársfjórðungi.

Arðsemi eigin fjár af rekstri bankans var 4,8% á þriðja ársfjórðungi en samanlögð arðsemi eigin fjár fyrstu níu mánuði ársins er 18,2%.

Virðisrýrnun á útlánasafni til einstaklinga á þriðja ársfjórðungi nemur 1,4 milljarði króna. Virðisaukning lánasafns bankans til fyrirtækja nemur hins vegar 8,3 milljörðum króna á sama tíma, en stærstur hluti hennar rennur til gamla Landsbankans. Þegar allt er reiknað fyrstu níu mánuði ársins hefur virðisaukning lánasafns bankans skilað tæpum 800 milljónum króna til rekstrar Landsbankans hf.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans er nú 23,6% og hefur hækkað um 6,3% frá sama tíma á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×