Viðskipti innlent

Minnst afskrifað í sjávarútvegi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steinþór Pálsson segir að Landsbankinn hafi afskrifað minnst í sjávarútvegi.
Steinþór Pálsson segir að Landsbankinn hafi afskrifað minnst í sjávarútvegi.
Landsbankinn hafði afskrifað skuldir fyrirtækja um 390 milljarða króna í lok septembers síðastliðinn, sagði Steinþór Pálsson, forstjóri Landsbankans á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna á fimmtudaginn. Hann sagði að bankinn hafi fært einna minnst niður af lánum hjá sjávarútvegi.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, birti á fimmtudaginn svar við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, um afskrifaðar skuldir sjávarútvegsfyrirtækja. Þar kemur fram að á árunum 2009-2010 voru afskrifaðar skuldir að andvirði um 10,5 milljarðar króna.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segist ekki vita hvernig upphæðin skiptist niður á sjávarútvegsfyrirtækin. Hann fagnar því að það skuli liggja fyrir hvernig afskriftir skiptast niður á atvinnugreinar, en segir að þá þurfi heildarmyndin að liggja fyrir. Í svari Árna Páls við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar á septemberþingi hafi til dæmis verið upplýst að 35 milljarðar hefðu verið afskrifaðir á fyrirtæki í fasteignaviðskiptum, 25 milljarðar á félög í byggingarstarfsemi, 29 á fyrirtæki í verslun, 19 hjá þjónustufyrirtækjum og 15 hjá iðnaðarfyrirtækjum og í landbúnaði.

Friðrik viðurkennir að vissulega hafi sjávarútvegsfyrirtækin búið við hagstæð rekstrarskilyrði frá hruni krónunnar. Það sama eigi við um önnur útflutningsfyrirtæki og þau fyrirtæki sem eru að keppa á innanlandsmarkaði við innfluttar vörur. „En það gleymist nú stundum að við erum nýkomin úr langvarandi sterku gengi,“ segir Friðrik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×