Viðskipti innlent

Segir Arion banka dæla fé í andvana fyrirtæki

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Verslunareigandi í Reykjavík segir með ólíkindum að Arion banki hafi sett á annan milljarð króna í Pennann sem hann kallar andvana fyrirtæki. Hann segir ekki hægt að vera í samkeppni við fyrirtæki sem er rekið í skjóli bankans.

Penninn sem er að fullu í eigu Arion banka tapaði samtals rúmum milljarði króna í fyrra og árið á undan, en Arion banki hefur sett á annan milljarð króna í formi lána og hlutafjáraukningar í þetta dótturfélag sitt.

Skúli Rósantsson, eigandi Casa húsgagnaverslunar, hyggst ásamt þrettán öðrum verslunareigendum og innlendum húsgagnaframleiðendum fara í mál við Arion banka sem hann sakar um óeðlilega viðskiptahætti.

„Þetta er eitthvað sem ekki er længur hægt að bjóða okkur upp á. Að Arion banki og þetta gæluverkefni Höskuldar bankastjóra (Eignabjarg, móðurfélag Pennans innsk.blm) sé búið að setja 1,7 milljarða króna í andvana fyrirtæki á tveimur og hálfu ári. Þetta er með ólíkindum," segir Skúli.

Penninn hefur nú í skjóli Arion banka tekið á leigu stórt húsnæði við hliðina á Casa og hyggst opna þar húsgagnaverslun í beinni samkeppni við Casa. Skúli segir þetta ólíðandi vinnubrögð. „Þetta er bara ekki hægt. Það er næsta skref hjá okkur að hjóla í Samkeppniseftirlitið, því þeir virðast ekki vera að gera neitt og leggja blessun sína yfir það sem bankinn gerir og bankinn virðist hafa leyfi til að gera hvað sem er."

Er þetta ekki erfið staða, að vera í sjálfstæðum rekstri og keppa við fyrirtæki sem rekið er í skjóli bankans? „Það þarf ekki annað en að skoða auglýsingaherferð Pennans, þeir auglýsa og auglýsa. Við þurfum að skoða hér á hverjum degi hvað við getum gert. Þeir hringja bara í bankann og fjármagni er dælt í fyrirtækið. Þetta er alveg fáránlegt," segir Skúli. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir

Staða Pennans sögð skekkja markaðinn

„Þarna er augljós skekkja á markaðinum sem getur verið verjanleg í einhvern örskamman tíma. En að fyrirtæki sé enn í mjúkum faðmi bankanna þremur árum eftir hrun gengur ekki,“ segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, um aðkomu Arion banka að Pennanum. Fréttablaðið greindi frá því í gær að bankinn hefði nýverið aukið hlutafé Pennans, sem er í 100% eigu félags í eigu Arion, um 200 milljónir króna þrátt fyrir að fyrirtækið hefði tapað rúmum milljarði króna á síðustu tveimur árum. Til viðbótar lánaði Arion Pennanum 500 milljónir króna í fyrra.

Ójafn leikur

Bankinn telur sig nú hafa náð tökum á rekstrinum og ætlunin er að selja félagið í byrjun næsta árs, samkvæmt svörum sem Fréttablaðið fékk hjá Arion banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×