Viðskipti innlent

"Raunveruleg skömm“ ef Ísland verður fast í kreppunni

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var ekkert að dásama verk ríkisstjórnarinnar í erindi sínu á fundi VÍB um efnahagsmál á Nordica Hóteli.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var ekkert að dásama verk ríkisstjórnarinnar í erindi sínu á fundi VÍB um efnahagsmál á Nordica Hóteli.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði það raunverulega skömm ef Ísland yrði fast í kreppunni í heilan áratug og að ríkisstjórnin hefði stöðvað fjárfestingar í atvinnulífinu á hugmyndafræðilegum forsendum, á í fundi VÍB um efnahagsmál á Hótel Hilton Nordica, sem nú stendur yfir.

Vilhjálmur flutti fyrsta erindið en aðalfyrirlesari á fundinum, sem ber heitið „ Ísland í endurreisn eða stefnukreppu?", er Martin Wolf, aðalhagfræðingur Financial Times og einn þekktasti fréttaskýrandi í heimi á sviði efnahagsmála. Þá stýrir Wolf einnig pallborði á fundinum.

Vilhjálmur lagði á það áherslu að fjárfestingar í atvinnulífinu væru forsenda efnahagsbatans. Hann sagði í erindi sínu, sem hann flutti á ensku, að einnar prósentu hagvöxtur á næsta ári þýddi stöðnun. Efnahagslífið þyrfti 4-5 prósenta hagvöxt á árunum 2013-2015 til að tryggja farsæla endurreisn í efnahagslífinu. Vilhjálmur fór yfir skaðsemi gjaldeyrishaftanna enda væri opinn markaður forsenda samkeppni á fjármálamarkaði. Útilokað væri að fá samkeppni að utan á fjármálamarkaðnum við núverandi aðstæður.

Vilhjálmur gagnrýndi stjórnvöld harkalega í erindi sínu og sagði að fjárfestingar í sjávarútvegi og stóriðju stæðu frammi fyrir hugmyndafræðilegum hömlum. Þá stæði hygmyndafræðileg andstaða stjórnvalda í vegi fyrir ýmsum vegaframkvæmdum.

„Það væri skömm, raunveruleg skömm (e. real shame) ef Ísland yrði fast í kreppunni í heilan áratug," sagði Vilhjálmur og vísaði þar til allra þeirra tækifæra sem væru til staðar til að örva hagvöxt.

Martin Wolf, sem stýrir fundinum en flytur sjálfur erindi síðar í kvöld, þakkaði Vilhjálmi fyrir fyrirlesturinn og sagði erindið endurspegla mikla aðdáun Vilhjálms á ríkisstjórn Íslands, en við þessa kaldhæðnislegu athugasemd Wolf hlógu fundarmenn dátt. thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×