Viðskipti innlent

Spáir óbreyttum stýrivöxtum hjá Seðlabankanum

Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 2. nóvember næstkomandi.

„Reiknum við með því að nefndin haldi vaxtahækkunartóni sínum a.m.k. fram að þeim tíma er markverð hjöðnun verðbólgunnar er fram komin. Við reiknum með óbreyttum stýrivöxtum fram yfir mitt næsta ár. Til lengri tíma reiknum við með hækkun stýrivaxta bankans samhliða því að úr slakanum í hagkerfinu dregur og afnám gjaldeyrishafta þokast áfram,“ segir í Morgunkorni greiningarinnar.

Síðan segir að þau rök sem peningastefnunefndin mun að mati greiningarinnar nota til að rökstyðja ákvörðun sína eru þessi helst:

Verðbólguhorfur til skemmri og miðlungslangs tíma hafa batnað talsvert undanfarið og endurspeglast það í uppfærðri verðbólguspá Seðlabankans. Verðbólgan verður við markmið bankans innan tveggja ára.

Verðbólgan lækkaði á milli september og október og hefur náð hámarki sínu í þessum verðbólgukúf. Líkur eru á því að verðbólgan verði í grennd við núverandi verðbólgustig næstu mánuði þar til hún tekur að hjaðna að nýju snemma á næsta ári.

Verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hafa lækkað nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun bankans.

Gengi krónunnar hefur hækkað frá síðustu vaxtaákvörðun bankans.

Meiri samdráttur var í hagkerfinu á síðasta ári en bankinn reiknaði með og minni hagvöxtur á þessu ári. Eftirspurnarslakinn í hagkerfinu er því meiri en áður var búist við.

Efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum hafa versnað nokkuð frá síðustu efnahagsspá bankans í ágúst síðastliðnum. Þetta dregur úr væntum hagvexti hér á landi og þar með hversu langvarandi slakinn í hagkerfinu verður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×