Viðskipti innlent

Steingrímur vill gleyma evrunni

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir nóbelsverðlaunahafa í hagfræði hafa fært sannfærandi rök fyrir því að íslendingar eigi ekki að taka upp evru. Að mati Steingríms á þjóðin að halda í krónuna.

Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, er meðal þeirra sem hélt erindi á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda í gær, þar sem hann varaði mjög við upptöku evrunnar og sagði Ísland standa mun betur að vígi en þau lönd sem hefðu tekið upp evruna.

Það er á stefnuskrá Samfylkingarinnar að taka upp evru. Steingrímur, sem er formaður Vinstri grænna,  er hins vegar sammála Krugman.

„Það voru mjög skiptar skoðanir meðal þessara erlendu aðila, og reyndar innlendra líka um hvort það væri skynsamlegt að Ísland stefndi á evruna, og mér fannst athyglisvert að heyra bæði Paul Krugman og fleiri öfluga menn færa fyrir því býsna sannfærandi rök af hverju það væri nú kannski ekki skynsamlegt," segir Steingrímur.

Liggur á ekki beinast við að þínu mati að halda í krónuna og hætta að hugsa um að taka upp evru?

„Ég hef nú verið þeirrar skoðunar, jú. Þið kannski fáið að heyra  meira af því seinni partinn í dag þegar ég set landsfund Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×