Viðskipti innlent

Vilja auðvelda Íslendingum gjafakaupin

Hermann Guðmundsson hjá Gjafatorgi.
Hermann Guðmundsson hjá Gjafatorgi.
Ný íslensk vefsíða, gjafatorg.is, býður til sölu ríflega fjörutíu gjafakort frá mörgum af þekktustu fyrirtækjum og vörumerkjum landsins. Forsvarsmenn vefsíðunnar segja tilgang hennar að auðvelda Íslendingum að gefa vinum og vandamönnum gjafir við sérstök tilefni og að þetta sé fyrsta fyrirtækið af slíkri tegund hér á landi.

Hermann Guðmundsson og Ari Steinarsson eru eigendur vefsíðunnar. „Sala gjafakorta hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, og sömu sögu er að segja hér á landi. Enda er mjög flott og þægilegt að fá slíka gjöf því þá getur viðkomandi sjálfur valið það sem honum langar mest í,“ segir Hermann.

Hann telur að þessi nýjung á íslenskum markaði henti afar vel þeim sem eru í vafa með hvernig gjöf skal gefa, þeim sem eru tímabundnir og þeim sem vilja síður flækja hlutina um of. Notendum er auðveldað valið við leit að réttu gjöfinni, hvert sem tilefnið er og hver sem viðtakandinn er. Þeir óákveðnu geta einnig nýtt sér gjafakort Gjafatorgs og gefið þannig viðtakandanum kost á að velja það gjafakort sem hann helst kýs á vefsíðunni.

„Til gaman má geta þess að nýleg bandarísk rannsókn sýndi fram á að mæður kjósa helst gjafakort á mæðradaginn en síst blóm.  Við teljum að það megi yfirfæra þetta yfir á íslenskan markað og því séu gjafakort góð viðbót við flóruna hér á landi. Byrjunin lofar góðu og við erum mjög ánægðir með viðtökurnar sem gjafatorg.is hefur fengið,“ segir Hermann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×