Viðskipti innlent

OR selur eignir fyrir 588,7 milljónir króna

Magnús Halldórsson skrifar
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur að undanförnu selt sjö eignaeiningar fyrirtækisins fyrir samtals 588,7 milljónir króna, samkvæmt formlegu svari OR við fyrirspurn fréttastofu. Tilboðsfrestur í einu eignina sem enn er í söluferli, Perluna, rennur út í dag.

Ákveðið var að fara út í söluna á eignunum vegna aðhalds í rekstri.

Af þeim sjö einingum sem seldar hafa verið var hæst verð greitt fyrir Hótel Hengil á Nesjavöllum, eða 210 milljónir króna.

Að auki var skemma við Andakílsárvirkjun seld á 5,3 milljónir, Árnes starfsmannahús við Andakílsársvirkjun á 16,2 milljónir, Berskerskeyri og Berserkseyri ytri, Snæfellsnesi á 75 milljónir, almannavarnarskýlið í Mosfellsdal á 27,2 milljónir, minjasafn OR í Elliðaárdal var selt á 100 milljónir og Hvammur og Hvammsvík án jarðhita á 155 milljónir.

OR hefur ekki viljað gefa upp hverjir voru kaupendur að þessum sjö eignum félagsins. Samkvæmt skráningum á fasteignaskrá ríkisins er þinglýstur eigandi skemmunnar við Andakílsárvirkjun Gunnar Gauti Gunnarsson, eigandi Árness starfsmannahúss er Guðrún Bjarnadóttir, eigandi Berskerseyri á Snæfellsnesi eru skráðir Össur Kristinsson, kenndur við stoðtækjaframleiðandann Össur, og kona hans Björg Rafnar og eigandi almannavarnarskýlisins í Mosfellsdal er Mosdal fasteignafélag ehf.

DV greindi frá því að Skúli Gunnar Sigfússon, sem rekur Subway á Íslandi, hafi keypt minjasafn OR, með fyrirvara um breytingar á skipulagi. Hann hefur nú þegar leigt húsnæðið til Boot Camp heilsuræktar. OR er þó enn skráður eigandi.

Þá keypti Skúli Mogensen, fjárfestir og stærsti eigandi MP banka, Hvamm og Hvammsvík, en hann hyggst stunda þar ferðaþjónusturekstur. OR er enn skráður eigandi samkvæmt fasteignaskrá.

Hótel Hengil keypti eignarhaldsfélagið Sep ehf., sem er í eigu Sigurlaugar S. Hafsteinsson, sem búsett er í Sviss, að því er DV hefur greint frá. Hótelið er þó enn skráð eign OR hjá fasteignaskrá, þó kaupin séu frágengin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×