Viðskipti innlent

Sex kauptilboð bárust í Perluna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Perlan er til sölu.
Perlan er til sölu.
Sex kauptilboð bárust í Perluna en frestur til að skila tilboðunum rann út í dag og voru þau opnuð síðdegis. Í tilkynningu frá Orkuveitunni, sem á Perluna, segir að tilboðin séu nokkuð ólík að gerð og uppbyggingu og farið verður yfir þau og þau metin á næstu dögum, m.t.t. hugsanlegra fyrirvara eða skilmála sem í þeim kunna að vera. Perlan er byggð ofan á sex hitaveitutanka á Öskuhlíð sem ekki verða seldir og munu áfram þjóna hitaveitunni í Reykjavík.

Perlan var auglýst til sölu í byrjun september og rann tilboðsfrestur út í dag. Hún er ein þeirra eigna sem stjórn OR samþykkti að selja í janúar síðastliðnum. Þá voru einnig settar reglur um söluferli eigna og ákveðið að gefa eigendum fyrirtækisins kost á að kaupa tilteknar eignir áður en þær færu í almenna sölu. Borgarráð Reykjavíkur ákvað samhljóða á fundi 23. júní sl. að gera ekki athugasemdir við að Perlan færi í almenna sölu og í kjölfarið leitaði OR tilboða í umsjón með sölu stærri eigna. Í því vali varð fasteignasalan Miklaborg hlutskörpust.

Eignasalan er hluti aðgerðaáætlunar OR og eigenda vegna fjárhagsvanda OR. Áætlunin felur í sér sölu á eignum OR sem ekki eru nauðsynlegar kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Heildarfjárhæð eignasölunnar á árabilinu 2011 til og með 2016 á að nema 10 milljörðum króna. Nú þegar hefur verið gengið frá sölu nokkurra eigna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×