Körfubolti

Signý snýr aftur heim á Hlíðarenda og spilar með Val í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Signý Hermannsdóttir í leik með Val á móti KR.
Signý Hermannsdóttir í leik með Val á móti KR. Mynd/Vilhelm
Signý Hermannsdóttir, miðherji íslenska landsliðsins og besti leikmaður Iceland Express deildar kvenna 2009 og 2010, ætlar að spila með nýliðum Vals í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í vetur en hún hefur verið í KR undanfarin tvö tímabil.

Signý, sem er 32 ára gömul, er uppalin í Val og er því að snúa aftur heim á Hlíðarenda. Signý lék fyrst með Val til ársins 1996 þegar kvennalið deildarinnar var lagt niður og allar Valsstelpurnar skiptu yfir í ÍS. Signý lék síðan aftur með Val frá 2007 til 2009 þegar kvennalið félagsins var endurvakið.

Signý spilaði með KR undanfarin tvö tímabil og varð Íslandsmeistari með KR 2010. Signý var með 12,8 stig, 10,6 fráköst og 5,4 varin skot að meðaltali í leik veturinn 2009-2010 og var þá kosin besti leikmaður deildarinnar.

Signý var einnig kosin besti tímabilið á undan þegar hún lék með Val og var með 19,1 stig, 14,2 fráköst, 5,7 varin skot og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Signý var með 6.9 stig og 6,6 fráköst að meðaltali á 25,3 mínútum með KR-liðinu á síðasta tímabili.

Signý á að baki 61 A-landsleik þar af 56 þeirra í byrjunarliði. Hún hefur skorað 509 stig fyrir íslenska A-landsliðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×