Viðskipti innlent

Verðbólguhættan réð vaxtaákvörðun

Verðbólguhættan réð því að Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur í morgun.

„Þróun undanfarinna mánaða hefur aukið hættu á að hærri verðbólguvæntingar og veikt gengi krónunnar festi of mikla verðbólgu í sessi, sérstaklega þegar efnahagsbatinn færist í aukana,“ segir í tilkynningu bankans um vaxtaákvörðunina.

„Í versta tilfelli gætu væntingar um aukna verðbólgu, neikvæðir raunvextir og lítill áhættuleiðréttur vaxtamunur við útlönd grafið enn frekar undan gengi krónunnar og valdið vítahring aukinnar verðbólgu og lækkandi gengis, þótt slakinn í þjóðarbúskapnum ætti í einhverjum mæli að vinna gegn slíkri þróun.

Til þess að draga úr hættu á slíkri atburðarás er nauðsynlegt að sporna nú gegn aukinni verðbólgu og hugsanlegum þrýstingi á gengi krónunnar. Það kann að kalla á frekari hækkun vaxta. Ákvarðanir í peningamálum munu þó sem fyrr taka mið af nýlegri þróun og horfum.

Peningastefnunefndin er reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×